Monday, February 25, 2008

33 ára

Jæja, þá er ég orðin einu árinu eldri. Takk öll fyrir afmæliskveðjurnar, sms, tölvupóstar, facebook kort osfrv. Gott að vera minntur á að maður eigi góða vini og fjölskyldu sem muna eftir manni.
Afmælisdagurinn var bara notarlegur, fór með brownies í vinnunna öllum til mikillar ánægju, varð nánast að geyma boxið eins og faldan fjársjóð því annars kom fólkið streymandi að úr öllum áttum til að ná sér í meira.
Við fórum út að borða í hádeginu á fínan veitingastað en um kvöldið fór ég nú bara snemma að sofa, því Salvador fór í steggja partý fyrir vin sinn sem er að fara gifta sig um næstu helgi.
Um helgina fórum við í grillveislu, þar sem aðal atriðið er að grilla vorlauka og dýfa þeim í rosalega góða sósu. Laukarnir eru alveg rosalega góðir, alveg dún mjúkir (verður að grilla þá lengi til að þeir séu mjúkir í gegn) og svo sósan líka frábær.
Set inn myndir af því við tækifæri.
Bless í bili (mikið að gera í vinnunni núna...)

Wednesday, February 20, 2008

ég ólétt


Fékk þessa mynd frá einum starfsfélaga, en hún var tekin haustið 2006 þegar við vorum að vinna á gamla staðnum. Núna erum við komin í miklu flottari byggingu, með alminnilegum gluggum, en þarna vorum við niður í kjallaraholu.

Friday, February 15, 2008

Heimsókn

Jei, það er kominn föstudagur og Þórhildur systir og Egill koma í heimsókn á morgun. Hef reyndar aldrei áður fengið jafn snubbótta heimsókn, en þau stoppa bara í 24 tíma...En ég er nú samt mjög ánægð með að þau skuli kíkja við. Er að vona að það verði sól og blíða svo við getum dúkað upp borðið í garðinum og borðað hádegismatinn úti.

Ætla að athuga hvernig gengur að setja inn video, hér að neðan er eitt stutt af Fjólu.

Wednesday, February 13, 2008

Lífrænn landbúnaður

Ég veit ekki alveg hvað ég var að spá að lofa svona upp í ermina á mér ægilegum pistli um lífrænan landbúnað....Ansi viðfermt efni og til að skrifa ágætan pistil þarf tíma til að lesa sig til og rifja upp hitt og þetta. Ég hef hinsvegar mikinn áhuga á efninu og að kynna mér þetta til hlýtar. Sérstaklega þar sem ég er orðinn félagi í þessu svokallaða kaupfélagi, en þar er kominn saman hópur af fólki áhugasamt um lífrænan landbúnað.
Það má alveg örugglega finna neikvæðar hliðar á málefninu, þess vegna borgar sig að skrifa upp lista með kostum og göllum og gera sér svo upp sína skoðun.

Kostir hefðbundins (eða inntensive) landbúnaðar:

  • Hefur aukið framleiðslugetu sína mikið, sem var nauðsynlegt vegna fólksfjölgunar
  • Verðið hefur lækkað (þar sem framleiðslan hefur aukist)
  • (sennilega fleiri kostir þarf að lesa mig betur til til að finna eithvað fleira hér)

Ókostir hefðbundinns landbúnaðar:

  • Notkun á skordýra og illgresiseitri er alltaf að aukast en virkni þess er alltaf að minnka (plönturnar og skordýrin eru orðin ónæm fyrir eitrinu)
  • Notkun tilbúinns áburðar er einnig að aukast, en gæði jarðvegsins er hinsvegar á niðurleið.
  • Fátæk ríki eru háð aðstoð að utan til að kaupa áburð og illgresis/skordýraeitur, en gætu annars verið óháð.
  • Aukin framleiðsla hefur sennilega náð hámarki og er jafnvel farin að minnka aftur þar sem búið er að “pína” jarðveginn í botn.

Ókostir lífræns landbúnaðar;

  • Minni afköst en við “hefðbundna” framleiðslu og þarafleiðandi þarf meira landrými til að framleiða sama magn.
  • Matvaran lítur stundum verr út
  • Dýrara í framleiðslu, þar sem það þarf meira landrými til að framleiða sama magn.
  • Minna úrval av vörum (þar sem ekki er hægt alltaf hægt að rækta allt í einu)


Kostir lífræns landbúnaðar;

  • Engin eiturefni notuð til að eyða illgresi eða skordýrum
  • Enginn tilbúinn(verksmiðjuframleyddur) áburður er notaður, en hann er slæmur því hann festist illa í jarðvegi og skolast því auðveldlega út með regnvatni. Eins og dæminn sýna erlendis hefur þetta leytt til að allt of mikil næringarefni hafa komist í ár og vötn og valdið þarafleiðandi ofvexti á þörungum og öðrum gróðri, sem hefur þá étið upp súrefnið í vatninu og það veldur fiskidauða… Einnig berast þessi efni í grunnvatn, sem getur svo gert það ódrykkjarhæft. Tilbúinn áburður inniheldur líka ýmis skaðleg aukaefni, eins og t.d. kadmium, en skortir á sama tíma allskyns snefilefni sem eru nauðsynleg jarðveginum.
  • Lífrænn áburður eykur næringargildi jarðvegsins og gerir jarðveginn “meira lifandi” í þeirri merkingu hann inniheldur meira lífrænt efni og fjölbreyttari flóru örvera. Lifandi jarðvegur er góður af því að honum helst betur á vatni, og minnkar líkur á skordýra/sveppa plágum.
  • Í lífrænum landbúnaði er stunduð skiptirækt, sem lýsir sér þannig að eitt árið er t.d. plantað kartöflum, en næsta ár er plantað tómötum á sama stað. Mismunandi grænmeti “sýgur” mismunandi næringu úr jarðveginum og með því að skiptast á klárar maður ekki ákveðin næringarefni úr jarðveginum (eins og getur gerst ef ár eftir ár eftir ár er plantað hveiti á sama stað) . Svo er það líka þannig að ákveðnar plöntur auðga jarðveginn af næringarefnum, eins og t.d. belgjurti, smári og lupina en þessar plöntur eru þeim eiginleikum gæddar að geta tekið níturoxíð úr loftinu og breytt því í nitur (köfnunarefni) sem er eitt nauðsynlegasta næringarefnið fyrir plöntur.
  • Við lífræna framleiðslu eru lögmál náttúrunnar höfð að leiðarljósi, framleidd eru matvæli án þess að skaða umhverfið né vöruna sjálfa. Hugað er vel að velferð jarðvegsins svo að hann geti framleitt matvæli um ókominnn ár.
Jæja eins og þig sjáið er listinn lengstur þar sem fjallað er um kosti lífræns landbúnaðar (enda eru þið að lesa bloggið hennar Kristínar ;)

Wednesday, February 6, 2008

Kaupfélag

Ég er oriðin meðlimur í kaupfélagi !! Líst mjög vel á þetta. Þetta virkar sem sagt þannig að hópur fólks, sem er áhugasamt um lífrænan landbúnað vinnur saman og sækir vörurnar beint frá bóndanum. Á þennan hátt get ég fengið lífrænar matvörur á heildsöluverði. Hver og einn hefur sitt verkefni í félaginu og mitt verkefni verður að raða í hillur 2x í mánuði. Skemmtilegt samfélag og gaman að hitta fólk sem hefur svipaðar hugmyndir og ég.

Tuesday, February 5, 2008

Brúðkaup

Loksins!! Ég er búin að bíða lengi eftir því að mér yrði boðið í fyrsta skiptið í hefðbundið spænskt/katalónskt brúðkaup. Sá sem ætlar að ganga í það heilaga er gamall vinur Salvadors ("læknirinn" fyrir ykkur sem munið eftir honum) en við héldum að hann mundi aldrei gifta sig, enda er hann rosalegur mömmustrákur, er í raun ennþá hálfgerður krakki þó hann sé 44 ára enda hefur mamma hans séð um allt fyrir "strákinn" sinn. Þetta verður klassíkst brúðkaup, en hér eru brúðkaupin flest öll eftir ákveðinni uppskrift (ekki eins og á Íslandi þar sem hver hefur sitt brúðkaup eftir sínu sniði). Það er lítill tími til stefnu, því þetta verður haldið 1 mars, ég verð því að fara panta tíma í hárgreiðslu við fyrsta tækifæri ;)
(verð að haga mér eins og spænsku konurnar, en þær fara allar í lagningu áður en farið er í brúðkaup)