Sunday, June 29, 2008

Evrópumeistarar

Spánverjar urðu evrópumeistarar í fótbolta í gær. Það brutust út þó nokkur fagnaðarlæti en þó sennilega ekki eins mikið og annarstaðar á Spáni. Eins og ég hef oft sagt áður er ekki mikil þjóðernistillfining fyrir hönd spánar hér í Katalóniu og flestum nett sama hvort Spánn vinni titla eða ekki. Enda voru fagnaðarlætin þegar Barcelóna vann evrópumeistarakeppnina ekkert lík. Málið er bara að hingað hefur alltaf verið mikill straumur af innflytjendum frá öðrum hlutum Spánar og þetta fólk hefur þjóðernistillfiningu fyrir hönd landsins og það voru því þeir sem fóru út á götur í gærkvöldi og flautuðu eða hlupu um með spænska fánann. En það sem var skemmtilegt er að þjálfari landsliðsins að þessu sinni er ekki eins mikill "madrídisti" og oftast hefur verið. Hingað til hafa landsliðsþjálfararnir nefnilega verið undir mikilli pressu um að taka inn sem flesta menn frá real madrid, en þessi hundsaði þá pressu. Raúl (einn af aðal köllunum í real madrid) sem hefur verið fyrirliði landsliðsins oft, var t.d. ekki með í þessu liði.

Thursday, June 26, 2008

Mikið að gera...

Uff, hvað það er mikið að gera hjá okkur. Ég hef ekki getað sofið heima síðustu 2 nætur því Salvador og rafmagnsmaðurinn hafa þurft að vinna fram á kvöld og Fjóla þarf að fara sofa kl 8, þannig að við höfum sofið hjá tengdó. Svo varð hún veik, fékk hita og svo er allt vitlaust að gera í vinnunni og ég þarf sennilega að koma að vinna á laugardag.

Í gær sagði ein samstarfskona mín dálítið sem ég held að maður eigi aldrei að sega, en hún óskaði sér að verða veik í 2-3 mánuði svo hún gæti verið frá vinnu. Auðvitað var þetta sagt í gríni, af því að það er búið að vera svo mikið vesen hjá okkur í vinnunni. Fyrir utan þetta þá vorum við að tala saman í hádeginu um dauðann og að það væri dálítið óhuggulegt að hugsa til þess hvað maður eigi eftir að upplifa í framtíðinni, dauða nákominna fjölskyldumeðlima og annað. Stuttu eftir hádegismatinn fékk hún símtal þar sem henni var tilkynnt að pabbi hennar hafði lennt í slysi og svo kom síðar í ljós að hann var dáinn. (var hinn hressasti að fara til vinnu á mótorhjólinu sínu, en fékk hjartaáfall).

Best að halda áfram að vinna...
bless í bili,
khk

Friday, June 20, 2008

Var stoppuð af löggunni

á leið heim úr vinnunni í dag, var nefnilega að tala í símann....já ég fylgdist ekki nógu vel með í speglunum þegar ég tók símann .....
Þegar hún stoppaði mig var það fyrsta sem hún bað um ökuskirteni, kvittun fyrir tryggingu á bílnum (nefnilega dálítið um það að menn keyri um á ótryggðum bílum) og nafnskirteni. Þegar hann sá þetta íslenska ökuskirteni spurði hann hversu lengi ég hefði búið hér og þegar ég sagði honum það, þá sagði hann að ég þyrfti að fá löggildingu á ökuskirteninu þar sem ísland væri ekki í evrópusambandinu. Ég reyndi að tala eithvað um samningin um evrópska efnahagsvæðið (en mundi samt að ein íslensk kunningja kona mín hafði sagt mér frá íslenskri stelpu sem hefði fengið mjög háa sekt fyrir að vera ekki búin að löggilda ökuskirtenið sitt (annnað að vera túristi, en það er víst leyfilegt að keyra um með alþjóðlegt ökuskirteni í hálft ár í sama landi). Lögreglan virtist nokkuð viss í sinni sök, en þar sem það kemur fram á spænska nafnskirteninu mínu eins og Ísland sé í Evrópusambandinu, hélt ég áfram að tala um þennan tiltekna samning. Þurfti svo að bíða ca hálftíma ut í vegarkannti á meðan lögreglan reyndi að hringja í rétta aðila til að afla sér upplýsinga. Þetta endaði svo með því að ég fékk 50 evru sekt fyrir að tala í símann, en ökuskritenið var látið gott heita þökk sé samningnum um evrópska efnahagsvæðið :) já hann er góður þessi samningur. Við fáum í raun flest þau hlunnindi sem fylgja því að vera hluti af evrópusambandinu en getum samt staðið fyrir utan. Held bara að það sé það besta í stöðunni.


Af öðru er helst að frétta að vinnan við að skipta út gömlum rafmagnsvírum fyrir nýja er langt komin, sést betur og betur að þetta var algjörlega nauðsynleg framkvæmd.
Þannig að það er ennþá mjög mikið að gera hjá okkur, ég má helst ekki koma heim með börnin fyrr en klukkan sjö , svo karlarnir fái vinnufrið. Ég fer þá á meðan á róló. Freistandi að fara á ströndina núna um helgina því það er orði svo heitt í veðri, en við verðum bara í róleheitum hér í Sabadell og veitum gömlu konunni, henni Jóakimu félagsskap.

Góða helgi kæru vinir og fjölskylda!!
Kristín Hildur

Wednesday, June 18, 2008

Jónsmessa

Hér er hefð fyrir því að skjóta upp rakettum á jónsmessu (ekkert á gamlárskvöld). Í gær kom Óskar Helgi heim með poka fullann af " sprengjum fyrir krakka" ....(stóð Baby á pakkanum). Hljómar kannski dálítið undarlega að 5 ára krakkar fái að sprengja, en hann hafði fengið ömmu sína til að kaupa þetta fyrir sig. Þetta voru nú voða saklausar sprengjur, við prófuðum hluta af pakkanum í gær, en þetta var dót eins og flöskurnar með pappírslengjunum inní, hurðarsprengjur eða annað smælki sem gefur frá sér liti eða reyk á gólfinu. Sennilega meira úrval hér, því það er enginn snjór og þetta fær að skoppa um á stéttinni.

Tengdamamma er að fara í ferðalag þessa helgi og er búin að biðja okkur að "passa" mömmu sína, þannig að við flytjum inn til hennar og sofum þar í 4 nætur. Annars er hún Jóakima bara nokkuð hress, hefur lítið breyst frá því að ég kynntst henni fyrst. Henni er samt ekki treyst til að sofa einnri í íbúðinni.


Hitabylgja í nánd, mátti nú alveg búast við því þar sem mai og júni hafa verið óvenju kaldir og mjög svo vætusamir.

bless í bili,
khk

Wednesday, June 11, 2008

Hér er allt að verða vitlaust vegna verkfalls vörubílstjóra (eru að mótmæla háu olíuverði). Vöruskortur er orðinn áberandi í búðum og fólk er farið að hamstra bensín (sko af því að það er ekkert bensín til á sumum stöðum, þar sem engir vöruflutningar eiga sér stað). Svo eru þeir líka að fara út á hraðbrautirnar og láta öllum illum látum og stöðva þar af leiðandi umferð. Ég var sem beturfer á öfugum vegarhelmingi í gær þegar ég var að keyra heim úr vinnunni, því það var allt vitlaust á hinum helmingnum.

Salvador og rafvirkinn eru byrjaðir að taka rafmagnið í gegn í húsinu, þannig að nú er aftur allt á rúi og stúi.

Verð að segja ykkur gullmola frá Óskari Helga. Ég var eithvað að skamma Fjólu um daginn og þá varð Óskar hinn reiðasti og sagði "mamma, þú mátt ekki vera svona vond við Fjólu"
Mér fannst líka rosalega sætt þegar hann spurði mig í fyrradag hvort hann mætti fara í trúðabúningi í skólann. Af því hann er mjög feiminn og vill jafnvel ekki vera í stuttbuxum, þá fannst mér þetta eithvað svo skemmtilegt. Þannig að í gær fór Óskar í trúðafötum í skólann ;)

Tuesday, June 10, 2008

Nammi

Er búin að vera maula sælgæti sleitulaust síðan ég fékk gestina í heimsókn, ég er svo rosalegur nammigrís!! Mér finnst alveg æðislegt að fá íslenskt nammi (og líka norskt)Mjög feginn að hafa nánast enga samkeppni á heimilinu. Það mun samt ekki vara lengi því Fjóla er strax farin að sýna að hún er mikill sælkeri, veit alveg hvað er gott kex og hvað er hollt kex, fússar við því (hendir því jafnvel í gólfið) en hlær og skríkir ef hún fær súkkulaði kex. Eins gott að ég passi vel uppá nammiskúffuna mína, því ef hún kemst á snoðir hvar það er geymt verðum við í vondum málum...

Óskar minn er hinsvegar allt öðruvísi, hann biður mig að kaupa nammi þegar við förum að versla, fær sér eitt og gleymir svo alveg að það sé til.

Monday, June 9, 2008

Hitt og þetta

Jæja, hér heldur bara áfram að rigna og enginn hiti í loftinu, eins og vant er á þessum tíma. Kaldasti mai mánuður í hundrað ár eða svo. Mér er svosem alveg sama, vil heldur hafa svona veður heldur en kæfandi hita. Ferðamennirnir eru kannski ekki alveg sáttir.

Salvador er búinn í prófum, jibbí!! Dálítið erfitt að hafa hann svona upptekinn. Í gær kom strákur að skoða rafmagnið með honum, en þeir ætla að byrja að vinna í því í dag. Rafvirkjanum fannst þetta nú ekkert líta svo illa út hjá okkur og held ég að bruninn hafi miklu frekar verið ofninum að kenna heldur en rafmagnskerfinu okkar. Slys geta alltaf gerst. En samt er nú ýmislegt sem má bæta, eins og að jarðtengja og koma í veg fyrir að maður fái stuð þegar maður er að setja í þvottavélina.


Það var annars mjög gaman að fá allar systurnar í heimsókn með kærastana sína. Við vorum samt dálítið óheppin því öll urðum við veik, sátum á klósettunum eða með föturnar fastar við rúmmin. Þannig að skipulagningin mikla fór algerlega út um þúfur ;)

Saturday, June 7, 2008

Fréttir frá Íslandi

Það var sorglegt að lesa um það í spænskum fjölmiðlum hvað Íslendingar voru gamaldags og fljótfærir þegar þeir drápu greyið ísbjörninn. Hefði verið svo gaman að lesa um það ef Íslendingar hefðu gert það sem í þeirra valdi stóð til að koma honum aftur heim til sín.
Það má ekki gleyma því hvað heimurinn er orðinn lítill og allar fréttir berast á örskotsstundu út um allan heim.

Svo fannst mér líka alveg týpískt að lesa þetta :
http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/2008/06/06/ekkert_leyfi_fyrir_hvalkjot/

Var þetta ekki vitað fyrirfram ?


Vona að Björk og Sigurrós nái að hrífa landann með sér til umhverfisvænni meðvitundar. Er mjög ánægð með þetta framtak hjá þeim.