Sunday, November 23, 2008

Trölladeig

Um helgina bjuggum við til trölladeig. Hef satt að segja aldrei gert það áður. Mjög mjúkt og gott deig að vinna með. Óskar bjó til mjög fallegt jólatré.
Fyrir þá sem hafa áhuga þá er uppskriftin þessi: 300 gr hveit, 300 gr salt, ein msk. matarolía. Þessu blandað saman í skál og svo bætt við vatni eftir þörfum. Hnoðað upp með höndunum. Bakað við 180 gráður í uþ.þbþ 1 og 1/2 klukkutíma


Lauk við að lesa Draumalandið eftir Andra Snæ, alveg frábær bók! Mér finnst þetta nánast vera skyldulesning fyrir alla Íslendinga.

Sunday, November 16, 2008

Gott á Íslandi!!

Datt í hug að búa til lista yfir það sem er gott á Íslandi (svona til tilbreytingar þessa dagana...)

  • Vatnið
  • Íslenska nammið, hvergi betra.
  • Malt og appelsín (appelsínugos hvergi eins gott og það íslenska, sem ég hef smakkað).
  • Lambakjötið
  • Fiskurinn (ég tala nú ekki um ef hann er ný veiddur, t.d. af bryggjunni á Hjalteyri)
  • Bláberin
  • Mauraleysið og fátækleg skordýraflóra
  • Grasið
  • Fámennið
  • Duglegt fólk
  • Sundlaugarnar
  • Fjölbreytt menningarlíf
  • Frumleiki í hugsun hjá mörgum
  • Hnallþórurnar (hvergi fengið betri kökur en á Íslandi)
  • Sumarbjartar nætur
  • Kósi kvöld í skammdeginu, þegar fjölskyldur hittast og gera smákökur eða laufabrauð
  • Hugtakið "þetta reddast" (þó stundum geti það verið ofnotað)

Örugglega margt margt fleira....
Dettur ykkur eithvað í hug ?

Saturday, November 15, 2008

Mjög góð ábending !

Langar að birta pistil sem skrifaður var á deiglan.com, en það hafa margir ungir sjálfstæðismenn skrifað greinar. Sá sem skrifar þessa grein hefur hins vegar ekki verið jafn flokksbundinn, eða flokksblindur og hinir. Enda hefur hann verið í uppáhaldi hjá mér af þeim sem þarna skrifa. Strákurinn er með doktorspróf frá harvard í hagfræði og var einn af þeim sem gangrýndi seðlabankann fyrir hrunið. Í raun er alltaf verið að benda á þetta, en þar sem pistilinn er skrifaður á netsvæði ungra sjálfstæðismanna finnst mér hún áhugaverðari fyrir vikið. Enda er pistlahöfundurinn virtur meðal lesenda síðunnar.

Hér kemur pistilinn;

Í síðustu viku voru ný bankaráð skipuð yfir nýju ríkisbönkunum. Svo virðist sem nýju bankaráðin hafi verið skipuð á pólitískum en ekki faglegum forsendum. Með fullri virðingu fyrir því fólki sem er í þessum nýju bankaráðum þá held ég að enginn telji að þarna fari þegar á heildina er litið þeir aðilar sem eru best til þess fallnir að gæta þeirra gríðarlegu hagsmuna sem skattgreiðendur hafa af rekstri nýju bankanna. Margt af þessu fólki virðist ekki hafa nokkra einustu reynslu af bankastarfsemi.Það er vitaskuld engin nýlunda á Íslandi að fagleg sjónarmið víki fyrir flokkspólitík þegar ráðið er í stöður hjá ríkinu. Á undanförnum vikum höfum við byrjað að súpa seyðið af þessu svo um munar. Er nema von að allt sé að fara til fjandans á Íslandi þegar trekk í trekk er gengið fram hjá hæfasta fólki landsins og afdankaðir stjórnmálamenn, skyldmenni þeirra og aðrir flokkshestar eru ráðnir í margar helstu stöður innan ríkisins.Ráðning Davíðs Oddssonar í stöðu Seðlabankastjóra er gott dæmi. Aðgerðir hans og ummæli á síðustu vikum og mánuðum hafa gert það að verkum að fjöldi erlendra stórblaða hefur birt greinar sem hæðast að honum og hæðast í leiðinni að íslensku þjóðinni.Við þurfum að lifa með afleiðingum pólitískra ráðninga ekki bara í Seðlabankanum heldur einnig í dómskerfinu, lögreglunni, utanríkisþjónustunni, heilbrigðiskerfinu, ráðuneytunum, ríkisstofnunum, ríkisfyrirtækjum og víða annars staðar. Við líðum öll fyrir þessar ráðningar á hverjum degi þótt það sé ekki augljóst nema þegar allt ef komið í óefni.Annað sem við höfum ekki efni á lengur er að þeir sem standa sig ekki í starfi komist hjá því að segja af sér eða vera settir af. Það er nánast engin hefð fyrir því að embættismenn og stjórnmálamenn segi af sér á Íslandi. Einu dæmin um slíkt hafa með smámál að gera eins og bílakaup, laxveiði og nú síðast að reyna að koma höggi á samherja. En þegar hundruð milljóna tapast og nú í seinni tíð hundruð milljarða gerist ekkert. Meira að segja George Bush þurfti á endanum að láta Donald Rumsfeld, Michael Brown og Alberto Gonzales fara. Á Íslandi hefðu þessir menn setið sem fastast.Við erum fámenn þjóð og því kemur oft upp sú staða að langhæfasti aðilinn til einhvers verks er í röngum flokki. Við þurfum nauðsynlega hugarfarsbreytingu í þessum efnum. Við höfum ekki efni á því að ganga fram hjá hæfasta fólkinu þegar kemur að stjórn mikilvægustu stofnana landsins.

Tuesday, November 11, 2008

Monday, November 10, 2008

Evra, en ekki evrópusambandið ?

Var að hlusta á þetta úr Silfri Egils og finnst Þetta spennandi hugmynd. Allavega eithvað sem þarf að athuga.

Tekið af bloggi Láru Hönnu:

Svartfellingar til fyrirmyndar
Óþarfi er að rífast um, hvort taka megi upp evru einhliða eða ekki. Það hefur verið gert án þess að spyrja kóng eða prest. Svartfjallaland gerði það með góðum árangri. Ráðgjafi landsins var Daniel Gros, forstöðumaður Centre for European Policy Studies í Bruxelles. Hann hefur skoðað Ísland og segir bezt að gera það sama hér. Ekki þegar um hægist. Heldur núna strax. Hann vill ekki lánið frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, sem hann segir gera illt verra. Hann segir Ísland geta útskýrt upptöku evru fyrir eigendum hennar sem neyðarráðstöfun. Sem fyrsta skrefið að innleiðingu evrópskra mannasiða.

Nú svo er ein hugmyndin þessi:
http://kristinnp.blog.is/blog/kristinnp/entry/704914/


Wednesday, November 5, 2008

Evrópusambandið

Mikið er talað um evrópusambandið núna og sá ég í könnun að stór meirihluti þjóðarinnar vill inngöngu. Ég sjálf er ekki alveg búin að gera upp hug minn. Þegar Salvador fór að tala um alla spænsku togarana sem myndu streyma til landsins og "ryksuga" upp fiskinn við Íslands strendur stóð mér nú ekki alveg á sama. Það verður að ræða kosti og galla mjög ítarlega. Ég held að ég hallist frekar að samstarfi við Norðmenn, ef það væri hægt.

Tuesday, November 4, 2008

blogg

Ég eyði drjúgum tíma í að lesa fréttir og blogg frá Íslandi. Er "heppin" í vinnunni því ég er svo oft að vinna vinnu sem krefst lítillar athygli og gefur mikinn frítíma. Þó svo að ég sé búin að fá hundleið á vinnunni þá kemur það sér ágætlega núna að geta haft tíma til að fylgjast með. Veit samt ekki alveg um hvað ég á að skrifa á mitt blogg, því varla er áhugavert að lesa á minni bloggsíðu um pólítik og kreppu á Íslandi.