Sunday, December 28, 2008

Jólafrí

Ég er komin aftur í vinnuna eftir viku frí, reyndar byrja ég hægt og rólega sem er náttúrulega frábært, ennþá dálítið eftir af frídögum.

Við fjölskyldan höfðum það bara mjög gott um jólin. Við tókum upp einn sið frá Höllu Tinnu, en það er að borða grjónagraut í hádeginu með möndlu (mín fjölskylda var vön að hafa möndlugrautinn í eftirétt um kvöldið, en mér finnst þetta eiginlega betra). Á aðfangadagskvöld kom tengdamamma og amma og við borðuðum saman íslenskt lambalæri. Það tókst reyndar ekki að hlusta á messuna frá Íslandi, sennilega of mikið álag á síðuna, þannig að við urðum að láta okkur nægja að hlusta á Mahalia Jackson. Höllu Tinnu fannst skemmtilegt að við værum líka vön að hlusta á hana á jólunum, en á hennar heimili var hún nefnilega líka fastur punktur á aðfangadag. Fjóla naut sín best við pakkaopnunia og var hún komin á svo mikla ferð að ég átti í erfiðleikum með að fylgjast með frá hverjum hvaða pakki væri. En mér finnst náttúrulega mikilvægt að krakkarnir læri að kunna meta gjafirnar og þakki fyrir sig.

Á jóladag var jólaveisla hjá Jósep (bróðir Salvadors) og Montse, svakalegt át á manni þann daginn. Svo kom líka Caga Tio, en það er trjádrumburinn frægi, sem krakkarnir eru búnir að mata og á jóladag lemja þau í hann með spítu og fara með ákv. þulu og þá kúkar hann (nammi eða gjöfum). Mjög skemmtilegt, nema hvað að Óskar vildi halda áfram endalaust, jafnvel þó að hann væri löngu hættur að kúka.

Annar í jólum var haldin hátiðlegur með tengdamömmu og ömmu, borðaðir caneloni og fl. en það er hefð hér, flestir borða caneloni 26. des (hakkað kjöt innvafið í pastarúllur) með hvtítri sósu og og osti yfir. Mjög gott (pabba finnst þetta reyndar ekki gott, en það er nú svo sem ekkert að marka hann;)

27. des vorum við með kaffi fyrir vinafólk okkar með börnin sín, þá spjöllum við konurnar saman á íslensku, en karlarnir tala á spænsku, þetta verður alltaf mjög kynskpt hjá okkur, veit samt ekki af hverju....

Í gær fórum við í smá bíltúr upp á fjall, fundum snjó og fórum að renna okkur á sleða. Mjög gaman, nema Fjólu fannst alls ekki gaman. Hún kunni mjög illa við kuldann og snjóinn og grét mest allan tímann, þannig að ferðin var heldur styttri en við hefðum viljað.

Nú er ég svo komin aftur í vinnunna, það er sem betur fer ekki mikið að gera, þannig að ég get bloggað, lesið blogg og kannski tjattað á skype (það er að segja ef einhver nennir að logga sig inn til að tala við mig).

En ég var ekki búin að tilkynna opinberlega að mér hefur hlotnast styrkur frá katalónska ríkinu til að hefja doktorsnám. Fékk að vita þetta rétt fyrir jól og fór strax og tilkynnti uppsögn í vinnunni!!
Eins og ég hef oft sagt hef ég nú ekki verið sérstaklega ánægð hér í vinnunni, enda er starfið frekar leiðigjarnt, launin lág og yfirmanneskjan leiðinleg.

Þannig að ég er rosalega ánægð með þetta, frábært að geta farið að gera eithvað nýtt og spennandi og svo verð ég líka mun nær Sabadell, því háskólinn er mjög náglægt okkur. Segi nánar frá verkefninu síðar, því þetta er farið að verða ansi langt hjá mér.

No comments: